Byggingarstjóri er framkvæmdastjóri byggingaframkvæmda. Hann ræður iðnmeistara með samþykki verkkaupa. Byggingarstjóri gerir verksamninga við undirverktaka með umboði verkkaupa. Byggingarstjóri ber ábyrgð á að byggt sé í samræmi við samþykkta uppdrætti, lög og reglugerðir. Byggingarstjóri skal fullnægja öllum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og byggingarreglugerðar varðandi ábyrgð og skyldur byggingarstjóra. Hann hefur umsjón með öllu er varðar verkframkvæmdina, Byggingarstjóri skal boða til og vera viðstaddur allar úttektir og hafa umsjón með öflun leyfa og samþykkta hjá yfirvöldum. Byggingastjóri sér um að framkvæma allar áfangaúttektir sjálfur, en þær áfangaúttektir er varða að fá skráð byggingastig, þá boðar hann byggingafulltrúa á staðinn til þeirra sérstöku úttekta.
Við stjórn byggingarframkvæmda hvers leyfisskylds mannvirkis skal á hverjum tíma vera einn byggingarstjóri, sbr. 27. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Byggingarstjóri skal hafa starfsleyfi Mannvirkjastofnunar, sbr. 1. mgr. 28. gr. sömu laga.
Byggingarstjóri er faglegur fulltrúi eiganda við mannvirkjagerð og starfar í umboði hans samkvæmt skriflegum ráðningar- eða verksamningi við eiganda. Byggingarstjóri skal gæta réttmætra hagsmuna eiganda gagnvart byggingaryfirvöldum, hönnuðum, iðnmeisturum og öðrum sem að mannvirkjagerðinni koma. Í lögum um mannvirki og byggingarreglugerð eru ítarleg ákvæði um hlutverk, skyldur og ábyrgð byggingarstjóra.
Tökum sem dæmi, eina áfangaúttekt.. byggingastjóri þarf að fara á verkstað, fullvissa sig um að hann sé með nýjustu teikningar/hönnunargögn með sér, og síðan fer fram sjónskoðun og sú skoðun borin saman við fyrirliggjandi gögn. Í framhaldi af þessu þá þarf að gera úttektarskýrslu sem fylgir þeim lögum og reglum Mannvirkjastofnunnar sem gerðar eru kröfur til, skýrslan er síðan vistuð í gæðastjórnunarkerfi byggingastjórans. Einnig þarf að skrá staðfestingu að úttekt hafi verið gerð, í þar til gerðu úttektarumhverfi í gátt Mannvirkjastofnunnar.